Þann 16. október síðastliðinn var fyrsti fundur vetrarins haldinn í Vídalínskirkju. Þar kom saman flottur hópur af ungu fólki og nokkrir nýjir bættust við sem ætla að vera með okkur í vetur. Við áttum gott kvöld saman og byrjuðum að vinna í nýþýddri vinnubók sem við ætlum að nýta okkur í sorgarvinnunni. Hún er upphaflega gefin út af bandaríska félaginu Our House: Grief Support Center en hópnum leist vel á efnið og það sköpuðust góðar umræður í þeirri vinnu.

Að því loknu fengum við til okkar tvo frábæra danskennara frá Kramhúsinu sem slógu upp danspartýi með okkur. Þegar búið var að ná fram smá svita og gleði birtust pizzur í boði Domino’s sem runnu ljúflega niður. Við þökkum Domino’s kærlega fyrir stuðninginn.

Kvöldið einkenndist af einlægri og heiðarlegri sorgarvinnu í bland við vináttu, gleði og dass af fíflalátum. Við í Erninum hlökkum til að halda áfram okkar góðu vinnu í vetur sem endar svo með helgarferð með allan hópinn næsta vor.